Páskahátíð og sumarkoma í miðjum lífshættulegum heimsfaraldri sem sér ekki fyrir enda á og með afleiðingum sem varla nokkur maður hefði getað ímyndað sér að yrði bláköld staðreynd, ekki einu sinni í kvikmynd eða skáldsögu. Þetta er samt staðreynd. Bankahrunið hafði geigvænlegar afleiðingar fyrir íslenskan vinnumarkað en áhrif kórónaveirunnar eru önnur, umfangsmeiri og mun alvarlegri.
Á þeim fagfélagsvettvangi sem ég starfa sætir fastráðið starfsfólk mikilli skerðingu starfshlutfalls með tilheyrandi tekjutapi, ef því hefur þá ekki verið sagt upp störfum í þrengingum fyrirtækja sinna. Verst er ástandið samt meðal sjálfstætt starfandi félagsmanna okkar. Þar sviðnar jörðin alveg niður í rót í mörgum tilvikum, fátt eða ekkert um verkefni. Algjör óvissa ríkir um hvað gerist næstu mánuði og misseri. Staðan er slæm og horfur ískyggilegar.
Svo vill til að ákveðið er að sameina síðar á árinu Félag tæknifólks í rafiðnaði, kjaradeild Félag kvikmyndagerðarmanna og Félag sýningarstjóra í kvikmyndahúsum. Oft er þörf en nú er nauðsyn að snúa bökum saman. Innan vébanda sameinaðs fagfélags verða margir þeirra hópa sem hvað verst fara út úr hamförunum sem geysa í samfélaginu. Við erum til að mynda að tala um Kvikmyndagerðarfólk, tæknifólk í leikhúsum, á tónleikum, við útsendingar frá kappleikjum og íþróttamótum og á hvers kyns samkomum, fólk sem fæst við forritun, kerfisstjórn, vefumsjón og marga fleiri.
Stundum göntumst við með að okkar fólk sé hinir ósýnilegu, mennirnir á bak við tjöldin, en samt ómissandi starfskraftar sem stuðla að því að gera árshátíðina, útsendinguna frá fótboltaleiknum, kvikmyndina, sjónvarpsþáttinn, ráðstefnuna, leiksýninguna og margmiðlunarefnið að því sem það er. Störfin framan myndavélar eru sýnileg en störfin aftan við þær ósýnileg, eðli máls samkvæmt. Hvoru tveggja nauðsynlegur hluti af heild.
Félagið okkar er í evrópskum og alþjóðlegum samtökum fagfólks tengdum kvikmyndagerð, framleiðslu sjónvarpsefnis, sviðslistum og margvíslegri margmiðlun. Í sameiginlegri yfirlýsingu þessara samtaka og samtaka framleiðenda og stofnana, er kallað eftir því að stjórnvöld á hverjum stað grípi skjótt til beinna og áhrifaríkra aðgerða til stuðnings félögum, launamönnum, lausráðnum og einyrkjum í geirum sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu til að reyna að afstýra menningarlegum skaða sem við blasir þegar kvikmyndagerð og framleiðsla sjónvarpsefnis hefur stöðvast og liggur niðri um víða veröld.
Bent er á ýmsar leiðir sem stjórnvöld geti farið. Beint liggur við að tryggja auknar atvinnuleysisbætur en ríkisaðstoð við faggreinarnar hlýtur að koma til álita og sömuleiðis opinberir styrkir til tiltekinna verkefna, lækkun skatta og gjalda á fyrirtæki og einstaklinga. Skammtímaaðgerðir eru vissulega skref í rétta átt en horfa verður lengra fram á veginn.
Auðvitað erum við í þessu öll og tökumst sameiginlega á við samkomubann, kjaraskerðingu, atvinnuleysi og félagslega erfiðleika sem tilheyra þessu dæmalausa ástandi. Margir í samfélaginu halda sem betur fer starfi sínu og tekjum. Aðrir eru illa settir og ég er í forsvari fyrir nokkra slíka hópa.
Augljóst er að rafrænar leiðir verða fetaðar í hraðvaxandi mæli í námi og miðlun til fróðleiks og afþreyingar. Það skyldi nú ekki vera að einmitt í veirufaraldri með tugþúsundir heimavinnandi á vegum fyrirtækja sinna eða á eigin vegum opnist augu ráðamanna og annarra fyrir ýmsum möguleikum á þessu sviði!
Rökrétt væri að grípa nú tækifærið og verja verulegum fjármunum í að byggja upp fjarkennslunet, skapa gagnvirkt námsefni og miðlunarkerfi til að treysta nauðsynlegar stoðir innviða upplýsingasamfélags á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Það hlýtur að vera vænlegra að virkja frekar krafta fagfólks en benda því bara á að skrá sig atvinnulausa! Þá er ég með í huga alla þá sem hafa þekkingu og reynslu af því að vinna með mynd, ljós, hljóð, grafík, hreyfimyndir og fleira slíkt en skortir vinnu og verkefni.
Nú er um að gera er að finna hugmyndum farveg og tryggja fjárhagslegan stuðning til að hrinda þeim í framkvæmd. Stefna saman fólki í hópa til að vinna að rafrænu, gagnvirku námsefni. Stofna hópa til að veita ráð, aðstoð og þjálfun í skólakerfinu til að bæta til dæmis fjarnám og færa þar út kvíar tæknilega.
Með þessu móti myndu stjórnvöld stuðla að því að snúa vörn í sókn, skapa vonir og auka bjartsýni í samfélaginu. Kreppa skapar tækifæri, okkar er að grípa þau.
Jakob Tryggvason,
formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. apríl 2020