FIM, FIA, UNI-MEI og Pearle* hvetja stjórnvöld til að grípa til neyðarráðstafana til þess að styðja viðburða- og sviðslistageirann

Til að bregðast við farsóttinni sem sífellt fleiri ríki víða um heim hafa glímt við hafa stjórnvöld nokkurra þeirra ákveðið, á meðal annarra neyðarráðstafana, að banna stærri samkomur með það að markmiði að hamla dreifingu COVID19 veirunnar.

Án viðeigandi stuðningsaðgerða hafa þessar ákvarðanir geigvænleg efnahagsleg og félagsleg áhrif á viðburða- og sviðslistageirann, þar sem fjölda viðburða og sýninga hefur verið aflýst fyrirvaralaust. Hvort sem um er að ræða launafólk eða verktaka blasir skyndilegt og nær algjört tekjutap við þeim sem starfa í geiranum, og voru margir þeirra ekki vel staddir fyrir. Margir aðilar sem standa fyrir listviðburðum munu verða fyrir miklum búsifjum vegna umtalsvert minni umsvifa.

FIM, FIA, UNI-MEI og Pearle* skora því á öll stjórnvöld að grípa til neyðarráðstafana til að styðja við viðburða- og sviðslistageirann í þessum einstöku aðstæðum, til þess að verja bæði öryggi og lifibrauð þeirra sem við hann starfa. Grípa þarf til sérstakra úrræða og fjármagna þau sem allra fyrst til að draga úr neikvæðum áhrifum þessa skyndilega tekjutaps.

ESB kynnti til sögunnar Viðbragðsáætlun vegna kórónuveirunnar þann 10. mars sem „beinist að heilbrigðiskerfum, smáum og meðalstórum fyrirtækjum, vinnumörkuðum og öðrum viðkvæmum þáttum efnahagslífsins“ og felur í sér opinberar fjárfestingar fyrir 25 milljarða evra. Nauðsynlegt er að tryggja að þessi áætlun gagnist viðburða- og sviðslistageiranum í samræmi við þá fordæmalausu áskorun sem hann glímir nú við, og öllum sem hafa lifibrauð af þessum sýningum og viðburðum, óháð samningsstöðu þeirra.

IAEA: FIM, FIA, UNI-MEI – Representing Arts and Entertainment workers worldwide

PEARLE* LIVE PERFORMANCE EUROPE – The voice of music, performing arts and live performance organisations